sunnudagur, janúar 01, 2006

Gleðileg jól og farsælt nýtt ár. Takk fyrir það gamla.
Get ekki sagt að þetta séu bestu áramót ævinnar. Ég sá þó flugelda - úr hjónarúmi tengdaforeldra minna með mjög hátt undir höfðinu. Fínt útsýni þaðan. Ég sagði við mömmu í síðustu viku þegar hún var að depast úr einhverri pest að ég væri búin að vera svo heppin þetta ár. Aldrei veik. Þá ákvað einhver að refsa mér fyrir þessi orð og ég steinlagðist í rúmið með 40 stiga hita á Gamlársdagsmorgun.. Gat ekki smakkað kalkúninn, gat ekki skálað nýja árið inn, og verst af öllu.... gat ekki sungið í Sing-Star. Og ég sem hefði unnið ;-) Þar sem ég hef engan tíma vinnu- né fjölskyldulega séð að vera veik - þá æddi ég til læknis í dag sem greindi streptókokka. Núna er ég farin að bryðja tveggja vikna birgðir af penisillini og bíð eftir að mér líði betur. Þessir streptókokkar hafa mjög undarleg áhrif á hausinn. Ég lá upp í sófa fyrr í dag og ákvað að leigja á Skjánum myndina The First Daughter (þar sem ég var nú ein heima). Hún er með Katie Holmes og einhverju krútti sem ég hef ekki hugmynd um hvað heitir. Yfirleitt horfi ég ekki á svona Cinderella myndir, hvað þá með Katie Holmes sem ég set í flokk með Söndru Bullock sem mest pirrandi leikkonur heims. En hvað um það .. Þegar myndin var hálfnuð byrjuðu tárin að streyma og það er alveg sama hvað ég reyndi að hætta og þurrka tárin og segja við sjálfa mig "díses viltu hætta þessu!!!" þá fóru tárin ekki. Ég viðurkenni að ég græt oft yfir myndum, sorglegum eða sætum en ég hef aldrei grátið jafn mikið og yfir myndinni First Daughter. Ég er farin að brosa yfir þessu núna, kannski 1. penisillin taflan sé farin að virka...

Engin ummæli: