þriðjudagur, maí 24, 2005

Meistaraprófsfyrirlestur við tölvunarfræðiskor verkfræðideildar Háskóla Íslands

Í dag, þriðjudaginn 24. maí kl. 14:00 heldur Stefanía G. Halldórsdóttir fyrirlestur um MS verkefni sitt í umhverfisfræði við tölvunarfræðiskor.
Verkefnið ber heitið:

HÖNNUN VATNAFRÆÐILEGS GAGNAGRUNNS FYRIR VATNATILSKIPUN ESB

Útdráttur:

Verkefnið snýst um gerð gagnagrunns með þarfir íslenskra stjórnvalda í huga. Markmiðið með því verkefni er að hanna landfræðilegan og vatnafræðilegan gagnagrunn með tilliti til Vatnatilskipunar Evrópusambandsins. Gerð er grein fyrir hvers konar landfræðileg gögn eru nauðsynleg til þess að hægt sé að framfylgja Vatnatilskipuninni. Gögn sem til eru, eru borin saman við tilskipunina og gerð grein fyrir hverju þurfi að bæta við, hvað þurfi að laga og hvað sé hægt að nota óbreytt.
Vatnafræðilegur gagnagrunnur er tengdur staðfræðilegum gagnagrunni og búið til landfræðilegt upplýsingakerfi er þjónar framangreindum markmiðum.

Vatnakerfi í landfræðilegum gagnagrunni þurfa að hafa vissa eiginleika til þess að hægt sé að nota þau í Vatnatilskipuninni og við vatnafræðilegar greiningar. Sýnt er í þessari ritgerð hvernig hægt er að tengja saman landfræðileg gögn og vatnafræðileg gögn í gagnagrunni. Ætlast er til þess að framsetning gagna vegna Vatnatilskipunarinnar fari mikið til fram á kortum, en nú um stundir eru stafræn kort nátengd gagnagrunnum þar sem landfræðileg gögn eru geymd í vensluðum gagnagrunni, og tengd vatnafræðilegum gögnum þar.

Fyrirlesturinn verður haldinn í stofu 156 í VR-II, húsakynnum verkfræðideildar Háskóla Íslands.
Meistaraprófsnefndina skipa Helgi Þorbergsson dósent, Kristinn Einarsson landfræðingur hjá Orkustofnun og fulltrúi deildar er Jónas Elíasson prófessor.

Engin ummæli: